top of page

Paunkholm fæddist í gleðskap í 101 Reykjavík, fyrir margt löngu. Þetta aukasjálf Franz Gunnarssonar gítarleikara og lagahöfundar fylgdi honum eftir og poppaði upp á yfirborðið við mismunandi kringumstæður, sem undirskrift við greinar sem Franz skrifaði í blöð á borð við Undirtóna og Sánd eða undirskrift í samskiptum á internetinu. Paunkholm var þó einna helst netfang og er það í raun enn í dag. Paunkholm var því tilvalið listamannsnafn þegar Franz ákvað að gefa út sólóplötu.  Hann vildi ekki nota sitt eigið nafn og búmm, Paunkholm fékk lífgjöf þó það væri aðeins í heimi óáþreifanleikans. Í raun hefur Franz alltaf verið Paunkholm og Paunkholm alltaf verið Franz.  Þeir lifa bara í sitthvorri víddinni.

Árið 2015 fór Franz í allsherjar endurskoðun á lífi sínu og tók rækilega til í sínum ranni.  Í þeirri tiltekt kom í ljós að á hinum ýmsu símum, tölvum, hörðum diskum og usb kubbum leyndust lagasmíðar sem hann mundi ekkert eftir að hafa samið.  Hann safnaði því í sarp og bætti við þær lagasmíðar sem hann átti til fyrir og úr varð yfir 100 hugmynda banki að lögum í hinum ýmsu formum.  Mikið af þessum lögum pössuðu ekkert fyrir þær hljómsveitir sem Franz er í og því kviknaði sú hugmynd að gefa þetta út, því á einn eða annan hátt þurfti að losa um þessi hugverk til að búa til pláss fyrir ný.

Paunkholm setti saman draumasveit til að vinna með og markmiðið var að vinna hratt og örugglega. Engar æfingar voru teknar fyrir upptökur.  Ekki var hangið yfir upptökum heldur voru hljóðfærin negld í fyrstu eða annarri töku.  Sama má segja um sönginn þar sem söngvarar mættu, sungu af innlifun og voru komnir úr söngklefanum eftir stutta stund.  Þessi vinnsluaðferð leitaðist við að fanga tilfinningu frekar en fullkomnun.  Í sumum lögum fengu meira að segja upptökur úr prufuupptökum laga að fljóta með.  Til að auka hljóðheiminn fengu nokkur lög strengja og ásláttaráferð og Paunkholm lumbraði meira að segja á grænlenska seiðtrommu til að töfra fram dýpri tón í einu laganna.

Upptökuferlið var gefandi tími með þeim frábæra mannskap sem kom að gerð plötunnar.  Sá sem á mesta heiðurinn að því að hún varð að veruleika, er upptökumaðurinn og hljóðblandarinn Einar Vilberg og stúdíóið hans, Hljóðverk. 

Kaflaskil var fylgt eftir með tónleikahaldi t.d. á hátíðunum Secret Solstice og Iceland Airwaves. Útgáfutónleikar fyrir plötuna voru haldnir í Norræna húsinu.

Spólum til síðla árs 2019 en þá fór Paunkholm aftur á stjá með útgáfu á laginu Hjartafleygur sem Paunkholm söng sjálfur. Lagið fékk fínar viðtökur en það var ekki á dagskrá á þessum tímapunkti að gera plötu.

Svo 2020 skall á Covid 19 faraldurinn og með aflýstu tónleikahaldi sá Paunkholm sér leik á borði að nýta tímann í stúdíó með það að markmiði að hafa plötu tilbúna fyrir árslok. Með hráar hugmyndir af lögum á teikniborðinu, var hafist handa að semja gripinn í sóttkví. Lög og textar urðu til og platan var unnin í skorpum.

Platan er gefin út í þeirri hugsjón að skapa músík og vonandi veita einhverskonar hughrif. Þó tónlistin sé poppuð þá eru textarnir engar tyggjókúluklessur. Það er undirliggjandi alvara í flestum þeirra, í bland við léttara hjal. Megin munur á milli þessa plötu og þeirrar síðustu er að á Paunkholm syngur listamaðurinn öll lögin.

Næst á dagskrá er vonandi að geta flutt nýju plötuna á tónleikum. Það gerist þegar þessi vírus hefur verið kveðinn niður.

Hafa samband: paunkholm@gmail.com

bottom of page