top of page

Einn dag í einu

Lagið varð til fyrir mörgum árum og hálf kláraður enskur texti sem bar heitið „closing time“ fylgdi með. Íslenski textinn var fljótur að koma en hann er dæmigerður fyrir megin þema plötunnar, sem er að berjast við fíkn og snúa við blaðinu. Sögupersónan ímyndar sér að þurfa ganga einn á vegi óreglunnar án barns síns og ákveður að brjótast úr viðjum neyslunnar og lifa einn dag í einu, sem er setning sem má eigna AA samtökunum. Kristófer Jensson er söngvari lagsins en hann er helst þekktur fyrir hljómsveit sína Lights On The Highway.

 

Afkvæmi

Lagið er líklegast það nýjasta sem var samið fyrir plötuna áður en haldið var í upptökur og kom það til á meðan frægu viðtali við fyrrverandi forsætisráðherra stóð yfir í Kastljósþætti á RUV. Vinnuheitið var Afmeyjun á aflandseyju og var hugsað sem ádeila en ég fékk fljótt ógeð á þeim pælingum. Í staðinn samdi ég hreinan og beinan texta um samband foreldris og barns. Tinna Marína syngur lagið.

 

Hughvarf

Lagið var upphaflega hugsað sem flipp hjá mér og barnsmóður minni þar sem við sátum heima eitt kvöldið að leika okkur. Við ákváðum að gera Eurovision lag og hún samdi textann sem virkar sem dúett á milli karlmanns sem er allt niðrum sig og einskonar heillar dísar sem stappar í hann stálið. Ég syng lúserinn og Erna Hrönn er heilladísin.

 

Álfaprinsessan

Lagið er samið í kringum aldamótin og er nett rokklag í grunninn. Textinn byrjaði að mótast fyrir nokkrum árum og er ég undir sterkum áhrifum frá ljóði Jónasar Hallgrímssonar um Álfareiðina, eða stóð ég úti í tunglsljósi eins og flestir þekkja það. Það er ævintýra bragur yfir laginu og því var tilvalið að fara alla leið og splæsa í gítarhetju sóló í endann og hann Andri Ívarsson leysir það verkefni með bravúr. Stefán Jakobsson syngur lagið.

 

Aumingjasnót

Í gegnum árin hef ég starfað með tríóinu Búðabandið ásamt Bryndísi Ásmundsdóttir söngkonu og Þórdísi Claessen slagverksleikara. Árið 2006 að mig minnir útsetti ég fyrir hönd Búðabandsins tónlistina í leikritinu Saumastofan 30 árum seinna sem er leikgerð af Saumastofu Kjartans Ragnarssonar og var sýnt í Borgarleikhúsinu. Það vantaði lag í verkið og er það nú hér á ferðinni með ögn breyttum texta sem fjallar um undirmálsmanneskju sem þrátt fyrir alla erfiðleika hugsar um líf sitt sem ævintýr. Að sjálfsögðu flytur Búðabandið lagið.

 

Um seinan

Lagið fjallar um það þegar manneskja er búin að ljúga og svíkja svo mikið að það sé ekki fræðilegur möguleiki að treysta henni. Upphaflega söng Jens Ólafsson eða Jenni í Brain Police inn á prufuupptökuna en það endaði svo að Stefán Jakobsson söng inn lokaútgáfuna. Skemmtilegt frá því að segja að partur af hljóðheiminum úr upprunalegu prufuupptökunni rataði inn í lokaútgáfuna.

 

Segðu frá

Þetta er nokkuð gamalt lag úr sarpinum og hefur alltaf verið með enskum texta. Ég reyndi að yfirfæra textann beint yfir á íslensku en meiningin komst ekki alveg til skila þannig að ég þurfti að vinna meira með efniviðinn. Það mætti segja að textinn sé endurspeglun á samfélaginu í dag, þ.e.a.s að ljót mál eiga ekki lengur heima læst djúpt innra með fólki þannig að leyndarmálin éti þau að innan heldur að koma þeim út í dagsljósið. Lagið var til að mynda notað sem upphafsatriði í fjáröflun Stígamóta seint á síðasta ári. Eyþór Ingi syngur lagið.

 

Lífsakkeri

Lagagrunnurinn var til en engin laglína né texti þegar söngkonan Tinna Marína fékk að velja úr lagabunka hjá mér til að syngja. Í kjölfarið hittumst við og hún raulaði laglínu inn á símaupptöku sem henni fannst passa. Það tók 10 mínútur og í kjölfarið gat ég klárað textann og loka útsetningu.
Lífsakkeri fjallar um missi og söknuð og að halda í heiðri góðar minningar, eitthvað sem við öll tökumst á við á lífsleiðinni. Textinn er innblásin frá Tinnu því hún var akkúrat að takast á við erfiðleika þegar lagið var unnið og kom reyndar bara beint inn í söngklefann úr jarðarför og söng lagið í einni töku. Algjör gæsahúð. Ég gaf svo Roland Hartwell algjörlega frjálsar hendur að leika á fiðluna á móti söngnum.

 

101 + 200 = 110

Þetta er með nýrri lögum sem valin voru úr laga sarpinum og til gamans má geta að arpeggiator hljóðgerfillinn er fenginn úr upprunalegu prufu upptöku lagsins. Textinn er mjög svo hefðbundinn svona, strákur verður skotinn í stelpu, verum kærustupar, ekki hætta með mér, ástin lifir að eilífu. Magni Ásgeirsson syngur lagið.

 

Nýr dagur

Lagið er eldgamalt en textan samdi ég árið 2009 og hafði hann þá litla sem enga merkingu fyrir mig á þeim tímapunkti þó svo hann var svo sannarlega um mig persónulega. Ég var bara staurblindur á raunveruleikann þá. Lagið fjallar einfaldldlega að rísa upp úr öskunni með dyggri aðstoð velunnara í kringum þig. Guðfinnur Karlsson vinur minn syngur lagið ásamt Stefáni Jakobssyni og Tinnu Marínu.

 

Tifandi lyf

Lagið er gamalt en textinn er nýr og fjallar um svefnleysi og að hafa ekki stjórn á hugsunum hugans. En eins og sagt er þá læknar tíminn öll sár og því heitir lagið Tifandi lyf. Texti millikaflans var gerður í miðjum söng upptökum og þar gleymdist í hita leiksins að syngja mjög mikilvæg orð sem í raun breyta allri meiningunni og leiðréttist hér með að sönglínan á að vera „Hví getur hugur minn Ei sofið um sinn“. Eyþór Ingi syngur lagið.

 

Svefnþula

Þegar drengurinn minn var í vöggu þá svæfði ég hann oft með gítarplokkinu í þessu lagi, það hafði einhver róandi áhrif á drenginn og því var það borðleggjandi að lagið yrði svefnþula. Það er tilvalið að hafa það sem loka lag plötunnar því ekki bara komi það á eftir laginu um svefnleysi þá er þetta það síðasta sem við gerum (þ.e.a.s að sofa) áður en við erum blessuð með nýjum fögrum degi. Reyndar má greina einhvern óróleika í lok lagsins en það er svosem eðlilegt því við dreymum ekki alltaf fallega.
 

Við fundum stað

Lagið fjallar um mann sem vill fara á vit ævintýra, selja allar veraldlegar eigur sínar og ferðast um heiminn í leit að paradís. Einn hængurinn er sá að kærastan er ekki alveg á sama máli og hún fer ekki með honum. Hann reynir og reynir að fá hana til að hitta sig og á endanum eins og í rómantískri sögu sameinast þau til að eyða saman ævikvöldinu. Mér fannst andi Mannakorns svífa yfir þessu lagi þannig að ég spilaði smá Magga Eiríks sóló í byrjun, honum til heiðurs.


Hvað ertu að pæla

Fjallar um að vera til staðar fyrir vini sína en lifa samt ekki í meðvirkni þó á móti blási. Ég fann lagastúfinn sem ég var búinn að gleyma að væri til á upptöku forriti í símanum mínum. Þegar ég reyndi að læra lagið upp á nýtt þá náði ég ekki að láta það hljóma eins og á upptökunni. Það var ekki fyrr en ég setti svokallað Capo á gítarinn, en Capo er tól sem breytir um tóntegundir og stýrir því hvar maður spilar á gítarhálsinum, að ég fann útsetninguna. Capóið er semsagt á öðru bandi gítarhálsins, í F#m. Aðal riffið er útúrsnúningur úr hefðbundnu blús stefi, spilað afturábak.

 

Segulsvið

Fíkn er ofursterk löngun og alls ekki góð fyrir mann skepnuna. Í laginu Segulsvið er fíknin klædd í búning valdatafls á milli kynjana. Önnur sögupersónan er einskonar þræll í ánauð sem getur ekki slitið sig frá segulsviðinu. Til að taka tvist á nútíma ásýnd í þjóðfélaginu þá er það ekki karlmaðurinn sem er drottnandi í þessu sambandi, það er konan sem er segulsviðið og karlinn er þrællinn. Gaman er frá því að segja að í hljóðheiminum má greina rafmagns gítar línur sem voru hljóðritaðar í prufu upptöku í eldhúsinu heima og rötuðu óunnar alla leið í loka útgáfu lagsins. Lagið sjálft var samið í kaffipásu þegar ég starfaði í Norræna húsinu hérna um árið.

 

Frátekin

Ég samdi þetta lag og texta eftir að hafa spilað í jarðaför hjá stúlku að nafni Perla Dís og var einungis 19 ára gömul þegar hún féll frá í blóma lífsins. Þar sem ég þekkti til stúlkunnar og fjölskyldu hennar var þessi framkoma í kirkjunni mjög erfið, sérstaklega þar sem fráfallið gerði engin boð á undan sér og það sat í mér þessi hugarlund að þurfa jarða barnið sitt eða einhvern svona ungan nákominn. Ég vona að ég þurfi aldrei að standa í þeim sporum en maður veit aldrei hvað lífið mun færa manni. Einhverjir hlustendur rásarinnar kveikja kannski á nafninu Perla Dís en andlát hennar var einmitt umfjöllunar efni Kveiks fyrir stuttu. Lagið ber með sér smá gospel keim í loka kaflanum en annars er það fremur lágstemmt.

 

Viðvæðing

Það er algjört eitur að ætla lifa eingöngu í egói og eigin sjálfi, að ætla bara vera ég en ekki við og kenna öllum öðrum um þegar lífið leikur mann grátt. Lagið fjallar um að við væða sjálfan sig, að losa um sjálfið, læra að hlusta á aðra og uppfylla þarfir aðrar en sínar eigin. Hljóðheimurinn ber með sér bítlakeim enda var það kallað bítla lagið á meðan vinnslu stóð.

 

Birtir til í svartnætti
Geðsjúkdómar hafa verið tabú í samfélaginu frá manna minnum. Fregnir af sjálfsvígum berast áberandi ennþá með hvísli á meðal fólks. Sem betur fer hefur orðið vitundarvakning undanfarin ár og ákall um að taka fastar á þessum málaflokki hjá hinu opinbera. Það er engin skömm að því að vera haldin geðsjúkdómi rétt eins og það er engin skömm að því að vera sykursjúkur. Í laginu Birtir til í svartnætti er skyggst inn í huga persónu sem haldin er þunglyndi, kvíða og sjálfsvígs hugsunum. Aðal stefið í versum og viðlögum átti ég til en það varð aldrei fullklárað fyrr en í fyrstu kórónaveiru bylgjunni þegar millikaflinn birtist og textinn fæddist. Ef þú kæri hlustandi tengir við efni lagsins og ert að ströggla þá má ég til með að benda á að það er aðstoð í boði, t.d. í síma 1717 eða 1717.is. 


Ein lota enn

Lagið er ádeila á kerfið sem umvefur okkar samfélag. Teiknuð er upp mynd af hnefaleika viðureign þar sem einstæð móðir þarf að verja sig og börnin sín gagnvart ofbeldis manni inni í hringnum. Lagið er sprottið út frá þeim sannleik að í okkar samfélagi þrífast siðlausir menn sem herja á konur og börn og kerfið er vanhæft bákn sem bregst seint og illa við. En þó svo að sögupersónan er móðir þá má alveg yfirfæra hlutskiptið yfir á feður því þeir lenda margir hverjir einnig í óréttlæti í kerfinu. Mér fannst nauðsynlegt að gera þetta lag þar sem ég horfi upp á kerfið fúnkera seint og illa og það er kominn tími til að gera eitthvað í málunum.

 

Gæfuspor   

Lagið fjallar um þá vegferð að vinna sporin 12. Að fara frá því að vera nær dauða en lífi í að lifa sem hamingjasamur, glaður og frjáls einstaklingur. Það fjallar um að gefast upp og þiggja hjálp, láta af stjórn í villu síns vegar og gefa sér annan séns og hvetja aðra í sömu vonlausu stöðunni til hins sama. Lagið er ekki áróður heldur vitnisburður um að betra líf er alltaf í boði, en bara ef ÞÚ vilt það og ert tilbúin til að taka skrefin. Gaman frá því að segja að gítarlínan í upphafi lags spratt fram í fyrstu töku algjörlega óundirbúin beint úr undirmeðvitundinni.

 

Heyr minn vitnisburð

Þegar Covid skall á bar á fréttum um heimilisofbeldi og morð. Textinn er litaður af slíkum óhugnanlegum fregnum og segir frá persónu sem er undir stjórn kvalara síns en enginn kemur til hjálpar. Þetta er hugsanlega mesta covid lagið á plötunni sem þó fjallar ekki um smit, sóttkví eða bóluefni heldur þá hrikalega fylgifiska sem fylgir svona einangrun og vonleysi í samfélaginu, sjálfu ofbeldinu. Lagið þróaðist úr því að vera kassagítar lag í svolitla keyrslu með rudda rafmagnsgítar og áherslu á frábæran píanóleik.

 

Engir draumórar

Engir draumórar fjallar um að láta af draumórum um betri líðan og hreinlega vinna í því að þroskast og betrum bæta tilveru sína, taka lífinu fagnandi og njóta þess sem í boði er. Það er svo mikil neikvæðini og leiðindi endalaust í gangi en hver og einn einstaklingur hefur val um að vera þátttakandi í þeirri vitleysu eða ekki. það er beinlínis nauðsynlegt að horfa á björtu hliðarnar og textinn minnir á það.

 

Hjartafleygur

Þetta lag var hugsprettan fyrir plötunni. Ég ákvað að senda frá mér eitt lag þar sem ég söng sjálfur og viðtökurnar urðu framar vonum. Covid skall á stuttu seinna og þá ágerjaðist sú hugmynd að hlaða í plötu. Hugmyndin að textanum var fengin frá hljómsveitinni Vök. Lagið þeirra Erase you fjallar um eitrað samband þar sem söguhetjan lokar á elskhuga, eyðir honum. Ég ákvað að gera texta frá sjónarhóli elskhugans sem er hafnað, svona hin hliðin á peningnum. Glöggir hlustendur heyra að það er öðruvísi bragur á hljóðmyndinni og spilamennsku, það er ekkert skrítið enda annar trommari og bassaleikari að leika listir sínar í þessu eina lagi.

 

Tær von

Lagið sem lokar plötunni er jafnframt það ljúfasta. Fyrir 6 árum síðan var ég á mínum myrkasta stað í lífinu. Það sem bjargaði mér frá glötun var barnið mitt. Það gaf mér styrk og von að rísa upp úr djúpum dimmum dal og vinna ötult í því að verða að betri manni. Textinn fjallar um það og ég er ekki frá því að foreldrar sem lenda í miklu mótlæti hugsi á sömu vegu. Ég spilaði þennan lagastúf þegar ég var að svæfa drenginn þegar hann var yngri en ég kláraði ekki að semja lagið fyrr en við gerð plötunnar. Núna þegar ég hugsa um það þá er þetta svipað og með síðustu plötu minni Kaflaskil en hún endar á laginu svefnþulu sem er annar lagastúfur sem ég notaði til að svæfa drenginn. Lagið Tær von og raunar platan öll er tileinkuð stráknum mínum, honum Orra Þór.

bottom of page