Einn dag í einu:

Lagið varð til fyrir mörgum árum og hálf kláraður enskur texti sem bar heitið „closing time“ fylgdi með. Íslenski textinn var fljótur að koma en hann er dæmigerður fyrir megin þema plötunnar, sem er að berjast við fíkn og snúa við blaðinu. Sögupersónan ímyndar sér að þurfa ganga einn á vegi óreglunnar án barns síns og ákveður að brjótast úr viðjum neyslunnar og lifa einn dag í einu, sem er setning sem má eigna AA samtökunum. Kristófer Jensson er söngvari lagsins en hann er helst þekktur fyrir hljómsveit sína Lights On The Highway.

 

 

Afkvæmi:

Lagið er líklegast það nýjasta sem var samið fyrir plötuna áður en haldið var í upptökur og kom það til á meðan frægu viðtali við fyrrverandi forsætisráðherra stóð yfir í Kastljósþætti á RUV. Vinnuheitið var Afmeyjun á aflandseyju og var hugsað sem ádeila en ég fékk fljótt ógeð á þeim pælingum. Í staðinn samdi ég hreinan og beinan texta um samband foreldris og barns. Tinna Marína syngur lagið.

 

Hughvarf:

Lagið var upphaflega hugsað sem flipp hjá mér og barnsmóður minni þar sem við sátum heima eitt kvöldið að leika okkur. Við ákváðum að gera Eurovision lag og hún samdi textann sem virkar sem dúett á milli karlmanns sem er allt niðrum sig og einskonar heillar dísar sem stappar í hann stálið. Ég syng lúserinn og Erna Hrönn er heilladísin.

 

Álfaprinsessan:

Lagið er samið í kringum aldamótin og er nett rokklag í grunninn. Textinn byrjaði að mótast fyrir nokkrum árum og er ég undir sterkum áhrifum frá ljóði Jónasar Hallgrímssonar um Álfareiðina, eða stóð ég úti í tunglsljósi eins og flestir þekkja það. Það er ævintýra bragur yfir laginu og því var tilvalið að fara alla leið og splæsa í gítarhetju sóló í endann og hann Andri Ívarsson leysir það verkefni með bravúr. Stefán Jakobsson syngur lagið.

Aumingjasnót

Í gegnum árin hef ég starfað með tríóinu Búðabandið ásamt Bryndísi Ásmundsdóttir söngkonu og Þórdísi Claessen slagverksleikara. Árið 2006 að mig minnir útsetti ég fyrir hönd Búðabandsins tónlistina í leikritinu Saumastofan 30 árum seinna sem er leikgerð af Saumastofu Kjartans Ragnarssonar og var sýnt í Borgarleikhúsinu. Það vantaði lag í verkið og er það nú hér á ferðinni með ögn breyttum texta sem fjallar um undirmálsmanneskju sem þrátt fyrir alla erfiðleika hugsar um líf sitt sem ævintýr. Að sjálfsögðu flytur Búðabandið lagið.

Um seinan

Lagið fjallar um það þegar manneskja er búin að ljúga og svíkja svo mikið að það sé ekki fræðilegur möguleiki að treysta henni. Upphaflega söng Jens Ólafsson eða Jenni í Brain Police inn á prufuupptökuna en það endaði svo að Stefán Jakobsson söng inn lokaútgáfuna. Skemmtilegt frá því að segja að partur af hljóðheiminum úr upprunalegu prufuupptökunni rataði inn í lokaútgáfuna.

 

 

Segðu frá:

Þetta er nokkuð gamalt lag úr sarpinum og hefur alltaf verið með enskum texta. Ég reyndi að yfirfæra textann beint yfir á íslensku en meiningin komst ekki alveg til skila þannig að ég þurfti að vinna meira með efniviðinn. Það mætti segja að textinn sé endurspeglun á samfélaginu í dag, þ.e.a.s að ljót mál eiga ekki lengur heima læst djúpt innra með fólki þannig að leyndarmálin éti þau að innan heldur að koma þeim út í dagsljósið. Lagið var til að mynda notað sem upphafsatriði í fjáröflun Stígamóta seint á síðasta ári. Eyþór Ingi syngur lagið

 

Lífsakkeri:

Lagagrunnurinn var til en engin laglína né texti þegar söngkonan Tinna Marína fékk að velja úr lagabunka hjá mér til að syngja. Í kjölfarið hittumst við og hún raulaði laglínu inn á símaupptöku sem henni fannst passa. Það tók 10 mínútur og í kjölfarið gat ég klárað textann og loka útsetningu.
Lífsakkeri fjallar um missi og söknuð og að halda í heiðri góðar minningar, eitthvað sem við öll tökumst á við á lífsleiðinni. Textinn er innblásin frá Tinnu því hún var akkúrat að takast á við erfiðleika þegar lagið var unnið og kom reyndar bara beint inn í söngklefann úr jarðarför og söng lagið í einni töku. Algjör gæsahúð. Ég gaf svo Roland Hartwell algjörlega frjálsar hendur að leika á fiðluna á móti söngnum.

 

 

101 + 200 = 110

Þetta er með nýrri lögum sem valin voru úr laga sarpinum og til gamans má geta að arpeggiator hljóðgerfillinn er fenginn úr upprunalegu prufu upptöku lagsins. Textinn er mjög svo hefðbundinn svona, strákur verður skotinn í stelpu, verum kærustupar, ekki hætta með mér, ástin lifir að eilífu. Magni Ásgeirsson syngur lagið.

 

Nýr dagur

Lagið er eldgamalt en textan samdi ég árið 2009 og hafði hann þá litla sem enga merkingu fyrir mig á þeim tímapunkti þó svo hann var svo sannarlega um mig persónulega. Ég var bara staurblindur á raunveruleikann þá. Lagið fjallar einfaldldlega að rísa upp úr öskunni með dyggri aðstoð velunnara í kringum þig. Guðfinnur Karlsson vinur minn syngur lagið ásamt Stefáni Jakobssyni og Tinnu Marínu.

 

Tifandi lyf

Lagið er gamalt en textinn er nýr og fjallar um svefnleysi og að hafa ekki stjórn á hugsunum hugans. En eins og sagt er þá læknar tíminn öll sár og því heitir lagið Tifandi lyf. Texti millikaflans var gerður í miðjum söng upptökum og þar gleymdist í hita leiksins að syngja mjög mikilvæg orð sem í raun breyta allri meiningunni og leiðréttist hér með að sönglínan á að vera „Hví getur hugur minn Ei sofið um sinn“. Eyþór Ingi syngur lagið

Svefnþula

Þegar drengurinn minn var í vöggu þá svæfði ég hann oft með gítarplokkinu í þessu lagi, það hafði einhver róandi áhrif á drenginn og því var það borðleggjandi að lagið yrði svefnþula. Það er tilvalið að hafa það sem loka lag plötunnar því ekki bara komi það á eftir laginu um svefnleysi þá er þetta það síðasta sem við gerum (þ.e.a.s að sofa) áður en við erum blessuð með nýjum fögrum degi. Reyndar má greina einhvern óróleika í lok lagsins en það er svosem eðlilegt því við dreymum ekki alltaf fallega.

  • Grey Facebook Icon
  • Grey YouTube Icon
  • Grey Instagram Icon